Veitingastaðurinn Spes Kitchen verður opnaður í Granda Mathöll í lok mánaðarins. Opnun staðarins ætti að teljast góð tíðindi fyrir grænkera þessa lands en staðurinn mun eingöngu bjóða upp á 100% grænkera fæði sem í daglegu tali er þó oftar talað um sem vegan. Forsvarsmenn staðarins eru þau Árni Steinn Viggósson og Sigrún Birta Kristinsdóttir.

Árni útskrifaðist út fjármálaverkfræði frá HR síðastliðið vor en Sigrún Birta er menntaður atvinnuflugmaður en hefur nú komið tímabundið niður úr háloftunum. Sigrún hefur undanfarið getið sér gott orð í heimi grænkera en hún heldur úti Instagram-reikningnum Byggt á plöntum auk þess sem hún gaf út samnefnda uppskriftabók síðastliðið vor en matseldin á staðnum mun verða í hennar höndum.

„Við ætlum að auðvelda aðgengi að vegan mat með því að bjóða upp á góða og næringarríka rétti sem eru auðveldir staðgenglar hefðbundinna rétta sem innihalda dýraafurðir.“ Að sögn Árna verður matseðillinn einfaldur en bjóði þó upp á það besta úr mismunandi matargerð. „Við verðum einungis með fjóra rétti til að byrja með en matgæðingar þurfa þó ekki að óttast einhæfni þar sem við ætlum okkur að kynna nýja rétti í hverjum mánuði.“

Árni segir að hugmyndin að staðnum hafi sprottið upp eftir að hann hafði sjálfur lent í vandræðum með að viðhalda grænkera mataræði að fullu þá sérstaklega vegna þess að aðgengi að vegan fæði á Íslandi hafi ekki verið nógu fjölbreytt þá sérstaklega á veitingastöðum. „Þrátt fyrir að flestir veitingastaðir hafi í auknum mæli komið til móts við grænkera þá er ekki eðlilegt að skipta próteinríku kjöti út fyrir fyrir rótargrænmeti og rukka sama verð. Spes Kitchen ætlar sér að koma til móts við þá sem hafa haldið sig frá vegan því þeir telja það ekki nógu próteinríkt. Staðurinn er bæði ætlaður grænkerum, þeim sem vilja fækka kjötmáltíðum en einnig þeim sem vilja borða góðan og hagstæðan mat, bæði fyrir veskið og umhverfið.

Markmiðið með staðnum er að fleiri muni borða vegan og fá fólk til að opna augun fyrir þeim ævintýralega  heimi bragðlaukanna sem vegan býður upp á. Það er mikil misskilningur að vegan fæði sé ekki próteinríkt og ekki sé hægt að bæta á sig vöðvum eða stunda íþróttir,“ segir Árni og bætir því við að hann skorar á efasemdamenn í fjölbragðaglímu fyrir utan Mathöllina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .