Verið er að leggja síðustu hönd á stóra viðbót við prufuútgáfuna af Dust 514 tölvuleiknum, sem CCP mun gefa út síðar á árinu. Eldar Ástþórsson hjá CCP segir að viðbótin muni koma út í byrjun júní, eða í kringum stóru tölvuleikjaráðstefnuna og sýninguna E3, sem haldin er í Bandaríkjunum.

„Við munum fljótlega bæta við um 10.000 nýjum „beta-spilurum“ og svo bætist annar stór hópur við um og í kringum E3 ráðstefnuna. Þegar þessir hópar báðir eru komnir inn verða spilarar í Dust orðnir um 50.000 talsins.“ Spilurum í Dust verður fjölgað smám saman eftir því sem líður á sumarið og viðbætur við leikinn koma inn samhliða. Markmiðið er svo að opna leikinn fyrir almenningi í september.