Stjórnvöld hefðu þurft að fá leyfi Alþingis til að sækja meira fé í uppbyggingu sparisjóðskerfisins ef þau hefðu viljað halda SpKef sparisjóði á lífi. Sparisjóðnum var rennt inn i Landsbankann síðastliðinn laugardag eftir að hafa starfað í 316 daga.

Nýtt endurmat á eignarstöðu SpKef, sem kynnt var í byrjun mars, sýndi að ríkissjóður hefði þurft að leggja sjóðnum til um 20 milljarða króna til að hann gæti mætt innlánum sínum og uppfyllt lágmarkskröfur Fjármálaeftirlitsins (FME).

Á fjárlögum eru 20 milljarðar króna áætlaðar í endurreisn sparisjóðakerfisins alls. Þegar sú upphæð var ákveðinn átti þorri hennar, um 12 milljarðar króna, að renna til Byrs og í kringum 5 milljarðar króna áttu að fara í SpKef. Byr var síðar endurreistur sem hlutafélag og verður að öllum líkindum kominn í hendur kröfuhafa sinna innan skamms. Ríkið hefur þegar sett um 2 milljarða króna í að endurreisa fimm sparisjóði á landsbyggðinni og fer bankasýsla ríkisins með meirihlutaeign í þeim öllum.

Versnaði við hvert mat

Áætlað framlag ríkisins til SpKef hefur hins vegar farið hækkandi nánast mánaðarlega frá því að hann var stofnsettur á grunni Sparisjóðsins í Keflavík í apríl í fyrra. Þá voru eignir, innlán og rekstur sjóðsins færð yfir á nýja kennitölu og vilyrði veitt fyrir því að ríkið myndi endurfjármagna hann gegn því að eiga sjóðinn að öllu leyti. Því til viðbótar lagði ríkið sjóðnum strax til 900 milljónir króna í nýtt eigið fé.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var reiknað með að sjóðurinn væri með um 7 milljarða króna neikvætt eigið fé eftir fyrsta endurmat á eignum og skuldum hans.  Sú upphæð átti að duga til að mæta muninum á innlánum sjóðsins, sem voru á bilinu 55-60 milljarðar króna, og eignum hans.

Þegar líða tók á árið 2010 fór sú tala þó sífellt hækkandi og í lok þess árs var ljóst að framlag ríkisins þyrfti að vera að minnsta kosti 14 milljarðar króna. Viðskiptablaðið greindi frá þeirri stöðu í upphafi árs 2011.