Fiskvinnslufyrirtækið Euro-Baltic Fischverarbeitungs GmbH í Sassnitz á þýsku eyjunni Rügen í Eystrasalti, hefur gert samning við Sæplast um kaup á 3.000 kerum, sem verða framleidd í verksmiðju Sæplasts á Dalvík.
Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Sæplast Dalvík ehf., segir samninginn afar mikilvægan, enda sé hann einn af stærstu sölusamningum sem fyrirtækið hafi gert. Framleiðsla keranna er hafin í verksmiðjunni á Dalvík og verða þau afhent á næstu mánuðum. Um er að ræða svokölluð 700 lítra ?Euroker", sem eru sérstaklega styrkt og í þau eru steyptar tölvuflögur sem notaðar eru til að stýra flæði keranna í verksmiðjunni.

Móðurfyrirtæki Euro-Baltic Fischverarbeitungs GmbH á Rügen er hollenska útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Parlevliet & Van der Plas B.V., sem gerir út fjölmarga togara á veiðar á uppsjávar- og botnfiski og rekur stór fiskiðjuver í Þýskalandi og Hollandi.

Síldarflökunarverksmiðja Euro-Baltic í Sassnitz, sem er 17 þúsund fermetrar að stærð, er ein sú stærsta og fullkomnasta í heiminum á þessu sviði og byggir á róbótum, færiböndum og öllum nýjasta búnaði til fiskvinnslu. Framleiðslugeta verksmiðjunnar, sem var formlega tekin í notkun 14. október 2003, er rösklega 50 þúsund tonn á ári og þar starfa um 100 manns.

Áður hefur Euro-Baltic Fischverarbeitungs GmbH keypt samtals 3.000 ker frá Sæplasti, fyrsti samningurinn var gerður árið 2002, og með þessum nýja samningi hefur fyrirtækið því keypt samtals 6.000 Sæplastker.

Ron Scholtus, umboðsmaður Sæplasts í Hollandi, hefur unnið að gerð samningsins við Euro-Baltic. Hann telur samninginn afar mikilvægan fyrir Sæplast, enda hafi kaupandinn gert miklar kröfur til vörugæða og þar hafi Sæplast haft vinninginn í samkeppni við aðra framleiðendur. ?Þessi samningur á sér langan aðdraganda. Fyrirtækið hefur áður keypt ker frá Sæplasti, sem hafa reynst mjög vel og sú staðreynd hefur vafalaust styrkt þá ákvörðun stjórnenda Euro-Baltic að gera þennan nýja samning um þrjú þúsund 700 lítra ker frá Sæplasti. Í mínum huga er enginn vafi á því að það er afar mikilvægt að þetta stærsta síldarflökunarfyrirtæki í heimi, þar sem tæknistigið er mjög hátt, velur ker frá Sæplasti. Það er góð auglýsing fyrir Sæplast og gefur okkur byr undir báða vængi með áframhaldandi markaðssetningu," segir Ron Scholtus.

Anton van der Plas hjá Parlevliet & Van der Plas B.V. er ánægður með samninginn við Sæplast. ?Við höfum lengi átt farsæl viðskipti við Sæplast. Við gerum miklar kröfur til vörugæða og endingar og framleiðsluvörur Sæplasts uppfylla okkar kröfur. Þau ker sem við erum núna að kaupa passa vel inn í sjálfvirkan tæknibúnað vinnslustöðvar okkar í Euro-Baltic. Þar þurfum við að hlaða kerunum í nokkuð háar stæður og þess vegna óskuðum við eftir að fá sérstaklega styrkt ker. Sæplast uppfyllti þessar óskir og því erum við að fá ker sem henta mjög vel inn í okkar vinnslu. Við könnuðum ýmsa aðra möguleika áður en við ákváðum að kaupa þessi ker frá Sæplasti, en niðurstaðan varð þessi. Að mínu mati er Sæplast leiðandi fyrirtæki á þessu sviði í heiminum og hefur orð á sér fyrir vandaðar og endingargóðar framleiðsluvörur," segir Anton van der Plas.