*

mánudagur, 19. apríl 2021
Erlent 27. febrúar 2021 16:01

Spotify sækir á nýja markaði

Spotify hefur tilkynnt um fyrirhugaða sókn inn á 85 nýja markaði, aðallega í Asíu, Afríku, Kyrrahafi og Karíbahafi.

Ritstjórn
Markaðirnir sem Spotify stefnir á telja samanlagt yfir milljarð íbúa.

Spotify hefur tilkynnt um áform sín um að sækja inn á 85 nýja markaði, aðallega í þróunarlöndum í Asíu, Afríku, Kyrrahafi og Karíbahafi.

Markaðirnir sem streymisveitan stefnir á telja samanlagt yfir milljarð íbúa og er um helmingur þeirra þegar nettengdur en netvæðing innan þeirra hefur víða verið hröð, meðal annars í Bangladess, Pakistan og Nígeríu.

Fyrirtækið tilkynnti um markaðssóknina á streymisviðburði, en á meðal þeirra sem komu þar fram voru Justin Bieber, Harry Bretaprins og Meghan Markle. Á viðburðinum tilkynnti fyrir tækið jafnframt um nýja áskriftarleið sem veitir notendum betri hljómgæði, auk þess sem fyrirtækið kynnti nýjan auglýsingamarkað fyrir hlaðvörp.

Spotify er sænskt fyrirtæki og er þjónusta þess aðgengileg í 93 löndum og hefur um 345 milljónir virkra notenda.