*

fimmtudagur, 22. október 2020
Innlent 30. júlí 2020 14:17

„Sprenging“ í sölu grímna og spritts

Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir andlitsgrímum og sprittvörum í kjölfar upplýsingafundar ríkisstjórnarinnar í hádeginu.

Sigurður Gunnarsson
Aðsend mynd

„Það var sprenging eftir fundinn í morgun. Bílaplanið fylltist um leið og síminn hefur ekki hætt að hringja. Við höfum þurft að kalla fólk út á aukavaktir til að anna þessari eftirspurn,“ segir Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rekstrarvara, sem flytur inn og selur hreinlætis-, hjúkrunar- og rekstrarvörur.

Á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar í morgun var tilkynnt um hertari samkomutakmarkanir. Þar kom meðal annars fram að almenningur skuli nota andlitsgrímur þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga. 

„Við höfum ekki undan að selja bæði grímur og spritt. Ég er að fá stórar pantanir á grímum frá öllum helstu fyrirtækjum, hvort sem það er fyrir rútur, hótel eða flugvélar. Þetta er í raun meira en í kjölfar fyrstu bylgju veirunnar,“ segir Einar.

Þrátt fyrir mikla eftirspurn hefur hann engar áhyggjur af birgðastöðu fyrirtækisins. „Við höfum verið að fjölga birgðum stöðugt frá því í byrjun árs því við vitum að veiran fer ekki fyrr en bóluefnið er komið. Það er til nóg af möskum, grímum, spritti og yfirborðsspritti en við sjáum ekki fram á neinn skort þó að aukningin á sölu sé svona mikil.“ 

Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir sprittvörum fyrir verslanir og þá sérstaklega snertifríum sprittstöndum. „Þeir rjúka út eins og heitar lummur,“ segir Einar.