Kaupendur þeirra bréfa sem stjórnarmenn Spron, starfsmenn og tengdir aðilar seldu í júlí og ágúst 2007 eru margir hverjir í vondum málum fjárhagslega vegna kaupanna. Þeir voru í raun lentir í afleitri stöðu strax fjórum mánuðum eftir að bréfin voru keypt þar sem þau hröpuðu í verði við skráningu á markað. Það er ekki síst sú staða sem knýr marga kaupendur, og lögmenn þeirra, áfram í viðleitni sinni um að fá allt um viðskiptin upp á borð.

Hæstiréttur hefur þegar kveðið upp dóm þar sem tekið er fram að kaupendur bréfa eigi rétt á því að fá upplýsingar um hverjir það voru sem seldu bréf á fyrrnefndu tímabili.

Davíð Heiðar Hansson fjárfestir fór með sitt mál alla leið fyrir Hæstarétt. Hann hafði keypt 4,9 milljónir bréfa að nafnvirði fyrir um 55 milljónir króna. Seljandinn var Áslaug Björg Viggósdóttir, eiginkona Guðmundar Haukssonar fyrrverandi forstjóra Spron, en hún seldi ríflega 10 milljónir bréfa að nafnvirði í heildina. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra er meðal annars að kanna sölu Áslaugar á bréfunum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Ekki síst eru það kaup Sólveigar Pétursdóttur, fyrrverandi dóms- og tryggingamálaráðherra, á stofnfjárbréfum sem þar eru til skoðunar. Hún keypti 2,7 milljónir stofnfjárbréfa að nafnvirði fyrir 30 milljónir króna skömmu eftir stjórnarfund Spron 17. júlí 2007. Hún átti þá bréf fyrir ríflega 3,3 milljónir að nafnvirði en fyrir kaupin átti hún bréf fyrir 664 þúsund að nafnvirði.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins setti Sólveig sig í samband við Guðmund Hauksson eftir að ákvörðun um skráningu á markað hafði verið tekin og bar það upp á hann hvort það væri skynsamlegt að kaupa stofnfjárbréf á þessum tíma. Guðmundur sagðist telja að svo væri og gaf henni upp nafn á verðbréfamiðlara í Spron sem gæti aðstoðað hana við að ganga frá kaupunum.Sólveig gekk síðan frá kaupunum í kjölfarið.

Eftir að Hæstiréttur hafði fellt dóm sinn í máli Davíðs Heiðars kallaði Sólveig eftir upplýsingum frá skilanefnd Spron um hver það hefði verið sem seldi henni bréfin, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Kom þá í ljós að Áslaug Björg, eiginkona Guðmundar, var seljandi bréfanna.