Erlendir áhættusjóðir dældu 15,3 milljörðum Bandaríkjadala í sprotafjárfestingar á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hefur fjárfesting þá aukist um 20,5% milli fjórðunga, en hún nam 12,7 milljörðum Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi 2016. Þetta kemur fram í MoneyTree Report, skýrslu sem unnin er af PWC og Venture Capital Association.

Þessa aukningu má að miklu leyti rekja til hlutafjáraukningar UBER og SnapChat. Samanlagt tóku einhyrningarnir tveir við 4,8 milljörðum dala, en það er nánast einn þriðji heildarfjárfestingar fjórðungsins. Niðurstöður skýrslunnar koma mörgum á óvart, enda hefur verið mikil óvissa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarna mánuði.

Í dollurum talið, hefur heildarfjárfesting ekki verið jafn mikil síðan netbólan náði sínum hæstu hæðum árið 2000. Ef litið er á fjölda fjárfestinga, má hins vegar sjá 5% lækkun. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 var fjárfest í 1011 sprotum, en fjárfest var í 961 sprota á seinni ársfjórðungi. Þó svo að fjárfestar í Kísildal séu almennt bjartsýnir, hefur verðmat lækkað um allt að 30 til 50% milli ára.