Um 25 þúsund manns sóttu tækni- og sprotaráðstefnuna Slush sem fram fór í Helsinki í lok nóvember. Ráðstefnan er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, og hefur verið haldin frá 2008, en í ár mættu yfir 3.500 sprotafyrirtæki og 2.000 fjárfestar.

Íslendingar létu sig ekki vanta, en 22 sprotar, 5 fjárfestingasjóðir og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, auk nokkurra annarra fyrirtækja, sendu fulltrúa. Að auki mætti fulltrúi frá íslenska sendiráðinu í Helsinki, Promote Iceland og Edda Konráðsdóttir frá Icelandic Startups.

Þátttaka Íslendinganna var af ýmsum toga, en má þar meðal annars nefna þrjá bása, fjölda kynninga og annarra viðburða, auk þess sem bræðurnir Davíð, Ari og Ingvar Helgasynir – sem allir hafa reynslu af frumkvöðlastarfsemi – ræddu uppvaxtarár sín og tengsl ásamt móður sinni, Sigrúnu Davíðsdóttur.

Endurgjöf dýrmæt
Þorgils Sigvaldason, annar stofnenda CrankWheel, sem var eitt þriggja íslenskra fyrirtækja með bás á ráðstefnunni, segir aðsóknina hafa verið meiri en hann hafi átt von á. „Það var stöðug umferð allan daginn og afar fjölbreyttur hópur fólks sem kom til okkar. Ástæðan fyrir því að við vorum með bás er að þá getum við bæði verið að selja kúnnum og á sama tíma fengið verðmæta endurgjöf frá fólki víðsvegar að úr heiminum. Það finnst mér dýrmætt.“

Auk beinnar þátttöku héldu Íslendingarnir fjölda svokallaðra hliðarviðburða, sem ekki eru hluti af opinberri dagskrá ráðstefnunnar, heldur skipulagðir af þátttakendunum sjálfum.

Hnitmiðaðir hliðarviðburðir
Til að vel til takist þarf góðan undirbúning að sögn Eddu. „Það þarf að vinna heimavinnuna sína og skoða dagskrána og hverjir eru að fara mjög náið. Fólk er mikið að sækja þessa sértæku hliðarviðburði, sem einblína sérstaklega á akkúrat þeirra sérsvið. Þannig færðu minna en hnitmiðaðra þýði af fjárfestum, ásamt því að sjá hvað aðrir eru að gera og fylgjast með þróun mála í greininni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .