Í ljósi þess hversu augljós þörf er á frekari lækkun vaxta fyrir atvinnulíf og heimili almennt veldur ákvörðun peningastefnunefndar, um að halda stýrivöxtum óbreyttum, verulegum vonbrigðum.

Þetta kemur fram í fréttabréf Viðskiptaráðs sem kunnugt er ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans á fimmtudag að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, eða í 12%.

Viðskiptaráð bendir á að töluvert hafi miðað áleiðis á nokkrum mikilvægum vígstöðum, en þar beri ráðstafanir í ríkisfjármálum til skemmri tíma og langtímaáætlun um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum hæst.

Við síðustu vaxtaákvörðun, þann 4. júní síðastliðinn, hefði peningastefnunefndin einmitt þessar aðgerðir vera grundvöll þess að endurheimta traust markaðarins svo svigrúm yrði skapað til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds.

„Þrátt fyrir mikilvægi þessara aðgerða þá virðast þær þannig hafa haft takmörkuð áhrif á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í dag.  Þetta vekur eðlilega upp spurningar hvort nefndin telji aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi gengið of skammt,“ segir í fréttabréfi Viðskiptaráðs.

Þá segir Viðskiptaráð að raunvextir séu enn óþægilega háir og verði að lækka verulega og sem allra hraðast til þess að auka flæði súrefnis inn í rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem sé afar bágborið þessa stundina.

„Til skemmri tíma er þetta eitt helsta hagsmunamál íslenskra fyrirtækja og heimila. Vonir Viðskiptaráðs standa því til þess að í næsta skrefi, í ágúst, verði vextir lækkaðir undir 10%. Það er hins vegar að mestu undir aðgerðum ríkisstjórnar komið hvort það verði reyndin eður ei,“ segir í fréttabréfi Viðskiptaráðs.