Greining Íslandsbanka spáir því að gengi krónunnar muni styrkjast um u.þ.b. 5% frá núverandi gildum fram á seinni hluta ársins 2017. Gengishækkun hennar nam 11% frá upphafi árs 2016 og 20% yfir síðastliðin tvö ár gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu. „Í kjölfarið teljum við hins vegar að gengi krónu taki að lækka á nýjan leik, enda raungengið þá orðið nokkuð hátt, farið að hægja á hagvexti og spennu í hagkerfinu, og tekið að draga úr gjaldeyrisinnflæði með minnkandi viðskiptaafgangi.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Þjóðhagsspá bankans. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, telur að styrking krónunnar hafi margþætt áhrif.

„Í fyrsta lagi þá er það að þetta hefur áhrif á innflutt neysluverð og vísitölu neysluverðs, til lækkunar verðbólgu, með þeim hætti sem við höfum séð talsvert af upp á síðkastið. Sá þáttur sem hefur haldið verðbólgunni í skefjum er sú styrking. En þó er það í minna mæli þar sem við reiknum með minni styrkingu á næsta ári, en síðustu tólf mánuði.

En á móti, jafn jákvætt og það er að þetta auki þetta kaupmátt og neyslu, þá hefur þetta neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuvega. Þar er náttúrulega allir útflutningsatvinnuvegirnir undir, en samsetningin á þeim hefur breyst mikið. Þar sem við sjáum ferðaþjónustuna stærstan. Hann er í raun næmari fyrir þessu, en bæði álið og sjávarútvegurinn. Magn ferðamanna bregst við“ segir Ingólfur í samtali við Viðskiptablaðið.

Áhrifin á ferðamannaþjónustu

Ingólfur telur jafnframt ekki spurning um hvort að þetta hafi áhrif á ferðamannaþjónustu, heldur hversu mikil áhrif. „Þar rennum við frekar blint í sjóinn. Hér er þetta bara einfaldlega of stutt staða til að geta sagt eitthvað fyrir vissu, hvað styrking á heimamyntinni hefur á fjölgun ferðamanna. Það er klárt að það dempi eitthvað vöxtinn í fjölda og útgjöldum þeirra,“ tekur Ingólfur fram.

Hann bendir einnig á að það hafi verið töluverður vöxtur á komu ferðamanna til landsins, þrátt fyrir styrkingu krónunnar. „Maður getur allaveganna sagt að þetta hefur ekki snúið vextinum í samdrátt. En þetta getur skilað sér inn með töf. Ferðamenn panta sér gistingu fram í tímann og menn festa verð á hótelum í þessum geira og svo framvegis.

Áhrifin á gengissveiflunni gæti farið að birtast okkur eftir eitt til tvö ár. Það er eitthvað sem þarf að skoða,“ segir Ingólfur að lokum.