Um 300 manns munu þreyta inntökupróf fyrir verðandi flugliða WOW air í Háskólabíó á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Wow air en Fréttablaðið greindi frá málinu í dag.

Hvað heitir höfuðborg Ástralíu? Hvað heitir framkvæmdastjóri Evrópusambandins? Hvað er Ísland stórt að flatarmáli? Svona hljóðuðu spurningar sem lagðar voru fyrir umsækjendur um starf flugliða í prófinu í fyrra. Það má búast við svipuðum spurningum í prófinu á morgun.

Í samtali við vb.is nú í hádeginu segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, að góður flugliði þurfi að hafa ofurþjónustulund, jákvætt viðmót og hæfni í mannlegum samskiptum: „Það geta komið upp ýmsar aðstæður um borð í háloftunum sem flugliðar verða að vera í stakk búnir til að leysa með bros á vör. Það er einnig afar mikilvægt að vera stundvís þar sem jú WOW air er stundvísasta flugfélagið á Íslandi. Við leggjum einnig áherslu á að flugliðar búi yfir góðri tungumálakunnáttu og hafi lokið stúdentsprófi," segir Svanhvít.

Um 50-60 manns verða ráðnir í sumarstörf flugliða en Wow air verður með fimm vélar í rekstri og mun fljúga til 17 áfangastaða. Næsta vor munu nýir áfangastaðir bætast við leiðarkerfi WOW air og er því þörf á að ráða fleiri flugliða til starfa. Gert er ráð fyrir um 600 þúsund farþegum með Wow air árið 2014 en árið 2013 flaug félagið með 450 þúsund farþega.