Orðspor íslensku krónunnar hefur skaðast mikið á undanförnu ári, og verður erfitt verk, kostnaðarsamt og langvinnt að endurreisa það. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

,,Raunar teljum við verulegar líkur á því að tími krónunnar sem gjaldmiðils Íslendinga sé senn liðinn. Á fyrstu mánuðum næsta árs mun væntanlegar ráðast hvort farið verður í aðildarviðræður við Evrópusambandið, en ljóst er að margir telja einn veigamesta ávinning af inngöngu í ESB felast í upptöku evrunnar hér á landi," segir í Morgunkorninu.

Þar kemur fram að verði sú leið farin verður krónan þó enn gjaldmiðill okkar a.m.k. næstu 5-6 árin, en leiða má að því líkur að stóran hluta þess tímabils verði gengi krónu tengt evru með einhverjum hætti. ,,Raddir um einhliða upptöku annars gjaldmiðils hafa einnig orðið háværari undanfarið og vel gæti farið svo að sú leið yrði fyrir valinu ef ekki verður af aðild að ESB. Ef þrautreyna á þá leið að halda íslensku krónunni má ljóst vera að endurskoða þarf ofan í kjölinn fyrirkomulag peningamála, enda hefur peningastefna flotgengis og verðbólgumarkmiðs reynst illa hér á landi, aukið sveiflur í efnahagslífinu og gert skipbrot fjármálakerfisins skæðara en ella," segir í Morgunkorninu.