*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 28. desember 2007 16:24

Staða Össurar sterk

Ritstjórn

Félög í heilbrigðisgeiranum eru ekki jafnháð hagsveiflunni og til dæmis fjárfestingafélög, og því er staða Össurar hf. til lengri og skemmri tíma vænleg, ef marka má orð forstjóra fyrirtækisins, Jóns Sigurðssonar. “Það ástand sem hefur verið í alþjóðahagkerfinu á undanförnum árum er óeðlilegt til langs tíma. Ódýrt lánsfjármagn, lítil verðbólga og mikill hagvöxtur er ekki eitthvað sem getur haldist. Ég býst því við að eðlilegra ástand taki nú við,” segir Jón. “Ég reikna með að einhverjir muni reyna að sjá samdrátt hjá fyrirtækjum í þeim uppgjörum sem berast eftir fyrstu fjórðunga næsta árs. Hins vegar er eðlilegt að vöxtur dragist saman í kjölfar tímabils viðlíka og því sem er að ljúka núna.”

Breyttar leikreglur í fjármögnun

Ódýrt lánsfjármagn á undanförnum árum hefur gert fyrirtækjum auðvelt að framkvæma skuldsettar yfirtökur, sem hefur í kjölfarið hækkað hlutabréfaverð mikið. Jón segir Össur hafa mætt mikilli samkeppni frá fjárfestingafélögum í yfirtökum í heilbirgðisbransanum: “Þessi félög hafa séð tækifæri í því að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum og keypt á verðum sem við höfðum aldrei séð áður, enda aðgengi þeirra að fjármagni nánast ótakmarkaður.. Gera má ráð fyrir að fjármögnun þessara félaga verði erfiðari á næstu misserum, en ég geri ekki ráð fyrir öðru en að aðgangur Össurar að lánsfjármagni verði áfram góður. Við erum með sterkan rekstur og mikið sjóðstreymi og verðum því ekki fyrir sömu skakkaföllum og fjármálafyrirtæki á tímum sem þessum.” Staða Össurar með tilliti til yfirtaka á öðrum fyrirtækja hafi því vænkast að þessu leyti. Aðspurður um hvort einhverra sviptinga mætti vænta á næstunni, gat Jón ekki tjáð sig um það: “Við munum einbeita okkur að innri vexti félagins á næstu mánuðum, en engu að síður erum við alltaf að skoða góð fjárfestingatækifæri í góðum fyrirtækjum.”