Staða sérstaks saksóknara verður auglýst laus til umsóknar. Umsóknarfrestur verður tvær vikur. Alþingi samþykkti í dag lög um embættið.

Sérstökum saksóknara verður ætlað að annast rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við fjárþrot fjármálafyrirtækja og eftir atvikum að fylgja henni eftir með útgáfu ákæru og saksókn.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir á vef sínum í kvöld að hann hafi, þegar hann upplýsti um áform sínum sérstakan saksóknara, varað við nornaveiðum vegna bankahrunsins. Hann endurtekur þau varnaðarorð.

„Nú eru um tveir mánuðir liðnir frá því að ég kynnti í þingræðu áform mín um sérstakan saksóknara. Ég held, að á þessum tíma hafi öllum orðið æ betur ljóst, hve mikilvægt er að haga skipan mála á þennan veg. Í ræðunni varaði ég við nornaveiðum vegna bankahrunsins og endurtek þau varnaðarorð," skrifar hann.

Sjá vef dómsmálaráðherrans hér.