Þýska lyfjafyrirtækið Stada Arzneimittel íhugar nú kaup á Actavis eða öðrum fyrirtækjum sem þóttu of dýr fyrr á þessu ári.

Þetta kemur fram á vef Bloomberg fréttaveitunnar í dag en forstjóri félagsins Hartmut Retzlaff staðfesti þetta á fundi hluthafa í gær.

Þá segir Bloomberg að hætt hafi verið við sölu Actavis í vor þar sem ekki hafi borist nógu há tilboð í félagið en samkvæmt heimildum Bloomberg höfðu eigendur þess, þar sem Novator er stærstur hluthafa, gert sér vonir um 5 milljarða evra fyrir félagið.

Retzlaff sagði að fjölmörg verkefni væru nú á borðinu, verkefni sem hugsanlega væru ennþá ofmetin en þó ástæða til að líta til.

Stada, sem nú er sjötti stærsti lyfjaframleiðandi heims (var áður fjórði stærsti) hefur ekki keypt eða yfirtekið annað félag frá árinu 2007. Retzlaffs lét þó nýlega þau ummæli falla að félagið hefði mikinn áhuga á því að taka yfir eða sameinast öðrum félögum svo lengi sem Stada „sæti undir stýri“ eins og hann orðaði það.

Í frétt Blooomberg kemur fram að auk Actavis sé Stada að horfa til þýskra lyfjaframleiðandans Ratiopharm. Þó er tekið fram að til greina komi að kaupa hluta úr félögunum. Hann ítrekaði þó að stigið yrði varlega til jarðar og ekkert svigrúm væri fyrir mistök um þessar mundir.