Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir þetta ár hefur verið endurskoðuð með tilliti til nýrra kjarasamninga og endanlegrar útfærslu á hagræðingaraðgerðum sem settar voru fram í fyrrahaust. Endurskoðuð fjárhagsáætlun var lögð fyrir á fundi bæjarstjórnar í dag.

Í endurskoðaðri áætlun er meðal annars áætlað að skatttekjur hækki um 994 milljónir króna, útsvarstekjur hækki um 819 milljónir og fari við það í 8,7 milljarða. Þá mun framlag úr jöfnunarsjóði hækka um 175 milljónir króna.

Þá kemur fram að nýgerðir kjarasamningar og leiðrétting á áætlaðri hagræðingu vegna uppsagna starfsmanna kostar Hafnarfjarðarbæ 989 milljónir króna.

Til viðbótar kemur fram í endurskoðaðri áætlun að ákvarðanir bæjarráðs og bæjarstjórnar og breytingar á áður gerðum samningum eykst rekstrarkostnaður bæjarins um 227 milljónir króna.

Áætlað veltufé frá rekstri Hafnarfjarðarbæjar er 1,7 milljarður króna er 63 milljónum meira en upphafleg áætlun hljóðaði upp á.

Haft er eftir Guðmundi Rúnari Árnasyni bæjarstjóra í tilkynningu að leiðarljósið við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2011 hafi verið að standa við þær skuldbindingar sem settar voru fram í áætluninni og það hafi tekist. Ánægjulegt sé að sjá að þær áherslur sem unnið hafi verið eftir á árinu séu að skila bænum betri útkomu en gert hafi verið ráð fyrir.