Lán upp á 7,5 milljarða króna eru í vanskilum hjá Íbúðalánasjóði og staða sjóðsins afar veik, segir Greining Íslandsbanka, sem fjallar um stöðu sjóðsins í Morgunkorni deildarinnar. Bent er á það í Morgunkorninu að útlán Íbúðalánasjóðs voru 38% minni í september en í sama mánuði í fyrra. Útlán námu samtals 1,3 milljörðum króna. Það sem af er ári hafa almenn útlán sjóðsins dregist saman um nærri helming.

Greining Íslandsbanka vísar í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Þar er talsvert fjallað um þróun vanskila á lánum sjóðsins, sem hafa vaxið mikið frá haustdögum árið 2008. Í septemberlok námu vanskil einstaklinga 5,1 milljarði króna en vanskil lögaðila 2,4 milljörðum króna. Samtals námu vanskil því 7,5 milljörðum króna. TIl samanburðar var eigið fé Íbúðalánasjóðs um mitt ár 6,4 milljarðar króna. Undirliggjandi lánavirði lána í vanskilum var hins vegar 126 ma.kr., eða sem samsvarar ríflega 15% af heildarlánasafni sjóðsins.

Í Morgunkorninu segir:

„Þar að auki verður að hafa í huga að sjóðurinn á ríflega 2.000 íbúðir og er innan við helmingur þeirra í útleigu. Enn fremur býr sjóðurinn við of rúma lausafjárstöðu, sem veldur rekstrartapi þegar vextir eru lágir, líkt og bent var á í nýlegu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika. Staða ÍLS er því afar veik og líklegt að stjórnvöld þurfi annað hvort að leggja sjóðnum til verulegt eigið fé á næstunni eða standa við þá einföldu ríkisábyrgð sem er á skuldabréfum sjóðsins.“