Sjóðir sveitarfélaga á Íslandi skulda um 44 milljarða króna vegna áfallinnar stöðu lífeyrissjóða starfsmanna sveitarfélaganna. Þetta kemur fram í samantekt Fjármálaeftirlitsins um stöðu íslenskra lífeyrissjóða á árinu 2011. Áfallin staða sjóða á ábyrgð sveitarfélaga var neikvæð um 39,3% um síðustu áramót.

Slæm staða sveitarfélaga

Neikvæð staða lífeyrissjóða á vegum sveitarfélaga er samtals um 44 milljarðar að því er fram kemur í samantekt FME. Í samantekt FME má sjá hvernig staðan er í  milljörðum króna en einnig hlutfallslega miðað við eignir sjóðanna. Þó svo að staða Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar sé til að mynda verst í milljörðum talið þá er hún hlutfallslega betri en staða sjóða annarra einstakra sveitarfélaga. Líta verður einnig á stöðu sveitarfélaganna því þau eru misjafnlega stór og misjafnlega vel í stakk búin til að mæta umræddum skuldbindingum.

Þó að staða einstakra lífeyrissjóða sé neikvæð þá er það ekki endilega svo að sveitarfélögin á bak við sjóðina  ábyrgist alla upphæðina. „Það er ekki eingöngu Akranes sem ber skuldbindingar gagnvart þessum sjóði, heldur er það líka ríkið,  þ.e. vegna sjúkrahússins, sjúkrasamlagsins og þess háttar,“ segir Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari Akraness varðandi stöðu  bæjarins gagnvart skuldbindingum lífeyrissjóðs starfsmanna Akraneskaupstaðar. Heildarstaða lífeyrissjóðsins er neikvæð um 4,8 milljarða króna og þar af eru áfallnar skuldbindingar um 4,6 milljarðar. Í ársreikningi Akraness kemur fram að lífeyrisskuldbindingar bæjarins nemi um 2,9 milljörðum króna. Til viðbótar við Akranes er það ríkissjóður, Orkuveita Reykjavíkur og Faxaflóahafnir sem bera sinn hlut af skuldbindingum sjóðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.