Matsfyrirtækin S&P Global og Fitch hafa bæði staðfest lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Hjá S&P er lánshæfiseinkunn ríkissjóðs A/A-1 með stöðugum horfum en hjá Fitch er lánshæfiseinkunn ríkissjóðs A með stöðugum horfum.

Fitch segir einkunnina stafa af háum þjóðartekjum, sterkum stofnunum, góðum lífskjörum og góðu viðskiptaumhverfi. Hins vegar reiði hagkerfið sig í miklum mæli á hrávöruútflutning og sé næmt fyrir ytri áföllum auk fyrri reynslu af efnahags- og fjármálasveiflum.

Hins vegar telur Fitch hafi geta til að mæta ytri áföllum gæti leitt til hækkunar. Á móti séu vísbendingar um ofhitnun í hagkerfinu, m.a. í formi víxlverkunar verðlags og launa, verðbólguskots og neikvæðar afleiðingar þess fyrir efnahagsreikninga hins opinbera, heimila og fyrirtækja. Einnig gæti mikið útflæði fjármagns sem hefði í för með sér ytra ójafnvægi og þrýsting á gengi krónunnar valdið lækkun lánshæfismatsins.

S&P telur að smæð og samþjöppun hagkerfisins gerir það viðkvæmt fyrir þróun ytri þátta og mögulegri ofhitnun af völdum innlendra þátta. Matsfyrirtækið gerir ráð fyrir að draga muni úr hagvexti á komandi árum eftir því sem hægir á vexti ferðaþjónustugeirans.

S&P segir að matið geti hækkað ef ríkisfjármál og ytri staða batna umfram væntingar næstu tvö árin. Lánshæfiseinkunn gæti lækkað ef áhætta tengd fjármálastöðugleika eða viðskiptajöfnuði raungerist meira en reiknað er með á sama tímabili. Til að mynda gæti ofhitnum hagkerfisins haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfi og hagvöxt til lengri tíma. Hið sama gæti átt við ef búsifjar verða í ferðaþjónustugeiranum með neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð og bankakerfið. Hið síðastnefnda gæti einnig haft áhrif á húsnæðismarkaðinn í ljósi áhrifa ferðaþjónustugeirans á uppbyggingu í byggingageiranum undanfarin ár.