Horfur í ríkisfjármálum eru talvert lakari en áður var gert ráð fyrir, tekjur verða minni og útgjöldin lægri. Þetta skilar tæplega 30 milljarða verri afkomu en spáð var, að sögn Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann kynnti stöðuna á fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Sigmundur Davíð dró upp talsvert dökka mynd af stöðu mála og lagði áherslu á að hún myndi dökkna talsvert. Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta tölublaði í síðustu viku að halli á fjárlögum gæti orðið allt að tífalt meiri en reiknað var með.

Frávik upp á tugi milljarða

Bjarni skýrði stöðuna á þann veg að tekjuáform hafi ekki skilað sér auk þess sem nýjar ákvarðanir um útgjöld skili lakari efnahagshorfum en fjárlagafrumvarpið hafi gert ráð fyrir. Hann benti á að útlit sé fyrir að heildartekjur verði átta milljörðum krónum lægri en gert var ráð fyrir á sama tíma og útgjöld verði sex milljörðum umfram áætlanir. Að viðbættri innspýtingu í Íbúðalánasjóð taldi hann hallareksturinn geta numið 30 milljörðum króna. Það er svipuð niðurstaða og í fyrra og var stefnt á að eyða hallanum á rekstrargrunni á þessu ári. Það gengur ekki eftir, að sögn Bjarna.

„Þessir veikleikar smitast inn á næsta ár,“ sagði Bjarni gob endi á að áætlanir geri ráð fyrir því að heildartekjur ríkissjóðs verði 13 milljörðum króna lægri á næsta ári en búist var við auk þess sem útgjöld verði 14 milljörðum krónum hærri. Þetta skili því að afkoma ríkissjóðs verði 27 milljörðum króna lakari en reiknað hafði verið með.