*

föstudagur, 13. desember 2019
Staðreyndavogin 12. október 2016 15:26

Staðreyndavogin: Gjöld vegna viðhalds vega og gistingar

Ferðamenn greiða nú þegar gjald sem á að fara í viðhald vega og engar greiðslur úr ríkissjóði eiga sér stað með gistingu ferðamanna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eldhúsdagsumræður á Alþingi 26. september 2016.

Oddný Harðardóttir, Samfylkingu:

„Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vaxið hefur mest og þar eru tækifæri. Flestir eru sammála því að ferðamenn eigi að greiða gjöld sem færu í viðhald vega og til að létta álagi af löggæslu og heilsugæslu, en á meðan við þrösum um mismunandi gjaldtökur er ferðamönnum gefinn afsláttur af virðisaukaskatti af gistingu og afþreyingu. Þar til á síðasta ári greiddum við með gistingu ferðamanna á hótelum landsins. Tæpir 3 milljarðar kr. voru samtals greiddir úr ríkissjóði á sex ára tímabili. Á sama tíma var dregið úr framlögum til viðhalds vega, lögreglunnar og heilsugæslunnar. Samdrátturinn heldur áfram. Í sumar var skorið niður um 13 stöðugildi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, á svæði þar sem flestir ferðamenn fara um og á meðan gumar ríkisstjórnin sig af góðæri.“

Ferðamenn eru nú þegar að greiða sérstakt gjald sem á að fara í viðhald vega en á síðasta ári er áætlað að ferðamenn hafi skilað til ríkisins um fimm milljörðum í formi bensíngjalds á eldsneyti sem keypt var á bílaleigubíla.

Þá gildir sú regla við byggingu atvinnuhúsnæðis, hvort sem er hótel eða aðrar byggingar, að húsbyggjandinn getur sótt um að fá innskattinn af aðföngum endurgreiddan úr ríkissjóði á byggingatíma. Eftir að húsnæðið hefur verið tekið í notkun þarf eigandi þess að skila virðisaukaskatti af leigutekjum í hærra þrepi virðisaukaskatts. Innskattinn sem fékkst greiddur úr ríkissjóði þarf að greiða upp að fullu á 20 árum eða skemur, óháð því hvort eigandi húsnæðisins notar það sjálfur eða leigir öðrum.

Engar greiðslur úr ríkissjóði eiga sér því stað með gistingu ferðamanna. Aðeins er um að ræða frest á fullum skilum virðisaukaskatts á byggingarstigi, þangað til atvinnuhúsnæðið er tilbúið og fer að skapa tekjur. Þessar sömu reglur gilda um alla aðra atvinnustarfsemi. Þannig fá t.d. fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu, iðnfyrirtæki og verslunarfyrirtæki virðisaukaskatt af framkvæmdum endurgreiddan.

Fram að Alþingiskosningum þann 29. október næstkomandi mun Viðskiptablaðið vega og meta ummæli sem frambjóðendur flokkanna láta falla á opinberum vettvangi. Ummælin verða sannreynd og niðurstaðan birt. Þessi liður mun birtast á vefsíðu Viðskiptablaðsins og bera yfirskriftina Staðreyndavogin.

Fleiri greinar úr Staðreyndavoginni: