Nú á dögunum voru opnaðir tveir staðir við Ingólfstorg sem báðir eru innblásnir af Suður-amerískri stemmingu. Sömu eigendurnir eru að þessum stöðum sem heita Pablo Discobar og veitingastaðurinn Burro. „Þetta er sinn hvor staðurinn hvor á sinni hæðinni, Burro er á annarri hæð- inni og Pablo er á þeirri þriðju, og algjörlega hvor sín hugmyndin. Burro er svokallað „modern Latino-tapas,“ veitingastaður og svo er uppi kokteil- og diskóbar,“ segir Gunnsteinn Helgi, einn eigenda Pablo Discobar og Burro.

Staðirnir voru opnaðir fyrir tveimur vikum og Gunnsteinn segir að viðtökurnar hafi verið vonum framar. „Við erum bara tiltölulega nýbyrjuð að auglýsa opnunina, það var til að mynda opnunarpartý í síðustu viku. Miðað við það þá hefur þetta gengið vonum framar. Það hefur verið fullt meira eða minna síðan við opnuðum. Við erum bara með skilti úti en ekkert meira – það stendur hvergi að þetta sé veitingastaður eða bar eða opnunartími stað- anna. Þá kemur fólk frekar sem veit hvað er að gerast,“ tekur hann fram.

„Modern Latin“ er málið í dag

Upprunalega var hugmyndin að opna „Modern Latino-veitingastað“ og við í eigendahópnum leituðum því að hentugu húsnæði. „Þetta er það sem er að gerast út um allan heim. Fyrst kom æði fyrir hamborgurum og steikum, í kjölfarið var það Nordic matseld, og svo sushi, en þetta er það sem er að verða vinsælast núna. Þetta er eðlileg þróun.

Þetta hefur verið að þróast yfir í fínni rétti í suður-amerískri matargerð. Við erum að detta í sama gír. Veitingastaðir með „þrengra concept,“ eru að verða vinsælli – þ.e. með skemmri opnunartíma og takmarkaðra úrval. Áður fyrr voru allir með Bistro; morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Menn eru nú farnir að hafa styttri opnunartíma og aðeins minna framboð. Við erum til dæmis með lokað í hádeginu – það býður upp á ákveðna stemmingu,“ segir Gunnsteinn.

Matur fyrst og hanastél á eftir

Spurður hvort gestir Burro kíki svo upp á þriðju hæð til að fá sér drykki, segir Gunnsteinn svo vera. „Við lentum í því Airwaves-helgina að við þurftum að loka efstu hæð- inni. Fyrstu hundrað sem komu til að borða, fóru í kjölfarið upp til að drekka og í kjölfarið þurfti að loka húsinu sökum plássleysis. Það var bara bið í að komast upp á efri hæðina. Þetta var ákveðið lúxusvandamál.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn tölublöð.