*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 10. nóvember 2021 15:31

Stærsta frumútboðið síðan Facebook

Rafbílaframleiðandinn Rivian hélt stærsta frumútboð á bandaríska hlutabréfamarkaðnum frá skráningu Facebook árið 2012.

Ritstjórn
R1T pallbíllinn frá Rivian.
epa

Rafbílaframleiðandinn Rivian safnaði 11,9 milljörðum dala í frumútboði fyrir skráningu á Nasdaq kauphöllina í New York. Ekkert félag hefur safnað jafn miklu fjármagni í frumútboði á bandaríska hlutabréfamarkaðnum frá því að Facebook, nú Meta, fór á markað í maí 2012, að því er kemur fram í frétt Financial Times.    

Amazon fer með 22% hlut í Rivian en netrisinn hafði fjárfest meira en 1,3 milljarða dala í rafbílaframleiðandanum í fyrri fjármögnunarlotum. Þá á bæði Ford og Cox Automotive meira en 5% hlut í Rivian.

Rivian hafði í byrjun mánaðarins stefnt að því að bjóða áskriftir á 52-62 dali á hlut en ákvað að lokum að hafa útboðsgengið í 78 dölum. Þrátt fyrir þessa hækkun þá seldi félagið 153 milljónir hluti samanborið við þá 135 milljónir hluti sem félagið gerði ráð fyrir.

Hin mikla eftirspurn eftir hlutabréfum Rivian endurspeglar miklar væntingar til framtíðargetu fyrirtækisins. Rivian hefur ekki verið með neinar tekjur frá stofnun árið 2009 samkvæmt útboðslýsingu. Félagið tapaði um 1 milljarði dala á fyrri helmingi ársins.

Rivian hefur fengið 50 þúsund forpantanir á R1T pallbílnum og R1S sportjeppanum. Þá hefur Amazon lagt inn pöntun fyrir 100 þúsund vörubíla sem verða afhentir fyrir árslok 2025.

Stikkorð: Amazon Rivian