*

sunnudagur, 19. september 2021
Erlent 20. mars 2018 16:22

Stærsta hlutabréfaútboði sögunnar frestað

Aramco, ríkisolíufélagið í Sádi Arabíu verður líklega ekki sett á markað í ár, meðal annars vegna hækkandi olíuverðs.

Ritstjórn
Mohammed bin Salman krónprins Sádi Arabíu, sem hefur tögl og haldir í landinu, heykist nú á hlutabréfaútboði sem hann hafði sjálfur boðað.
epa

Stjórnvöld í Sádi Arabíu hafa ákveðið að draga úr umfangi hlutabréfaútgáfu Aramco, ríkisolíufélagsins í landinu, sem stjórnvöld hafa boðað að verði í árinu. Samkvæmt breyttum áætlunum verða bréf félagsins sett á markað í Sádi Arabíu en áfram verður íhugað að setja félagið einnig á erlenda markaði.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um yrði hlutabréfaútboð fyrirtækisins það allra stærsta í sögunni, en rætt er um að safna um 100 milljörðum Bandaríkjadala með sölu á um 5% hluta í bréfinu. Ef það myndi ganga eftir væri félagið metið á í kringum 2 þúsund milljarða dala, eða sem nemur rétt um 200 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Samkvæmt frétt WSJ um málið hefur ákvörðunin verið tekin vegna áhyggna af lagalegri áhættu en einnig því að þörf stjórnvalda fyrir stærra útboði hafi minnkað vegna hækkandi olíuverðs. Þegar útboðið var fyrst boðað seldist olíufatið á undir 30 dali en nú er fatið komið upp í um 65 dali.

Trump vill skráningu í Bandaríkjunum

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað eftir því að félagið verði sett á markað í Bandaríkjunum, en krónprinsinn í landinu, Mohammed bin Salman er sagður hafa áhyggjur af því að þar með gæti félagið staðið óvarið fyrir hættu á lögsóknum í Bandaríkjunum. Krónprinsinn sér um alla dagsdaglegu stjórn í landinu.

Jafnframt þyrfti fyrirtækið að gefa upp upplýsingar um reksturinn  í kauphöllum Bandaríkjanna, London eða Hong Kong eins og upphaflega hafði verið rætt, sem stjórnvöldum virðist ekki lítast á að þurfa að gefa upp. Prinsinn mun hitta forsetann og leiðtoga í bandarískum viðskiptum á ferðalagi um Bandaríkin sem byrjar á mánudag og er talið að málið verði rætt þar.

Kauphöllin í Sádi Arabíu, Tadawul, myndi styrkjast mikið við útboðið, en hún er sögð geta verið of lítil fyrir fyrirtækið. Heildarmarkaðsvirði allra hluta í kauphöllinni nemur um 480 milljörðum dala, sem er minna en helmingur á matsverði Aramco, sem talið er liggja á milli 1.300 milljarða dala upp í 2000 milljarða.

Kínverjar gætu orðið kjölfestufjárfestar

Jafnframt eru takmarkanir á því hve mikið alþjóðlegir fjárfestar geti fjárfest í smærri kauphöllum. Kauphöllin hefur til að mynda ekki verið samþykkt til þátttöku í vísitölum sem notaðar eru til fjárfesta í vísitölusjóðum. Er nú sagt ólíklegt að útboðið verði í október í ár eins og upphaflega hafði verið stefnt að, og er líklega í fyrsta lagi hægt að gera ráð fyrir því í apríl á næsta ári.

Ætlunin með útboðinu er að fjármagna efnahagslega umbreytingu hagkerfisins í Sádi Arabíu með því að stofna sjóð sem myndi fjárfesta í því að byggja upp fjölbreyttara hagkerfi í landinu. Enn er þó talið mögulegt að útboðið verði í Hong Kong, samhliða því að Kína yrði kjölfestufjárfestir í félaginu með margmilljarða framlagi.