*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 16. júní 2021 07:04

Stærsta hótel Vestmannaeyja á sölu

Hótel Vestmannaeyjar, sem hjónin Magnús Bragason og Adda Jóhanna Sigurðardóttir hafa rekið í áratug, hefur verið auglýst til sölu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félagið Hótel Vestmannaeyjar ehf. hefur verið auglýst til sölu, en það rekur samnefnt hótel sem er stærsta hótel Vestmannaeyja, alls 43 herbergi og gistiheimilið Sunnuhól sem telur 6 herbergi með 16 rúmum. 

Í fasteignaauglýsingu segir að félagið hafi rekið Hótel Vestmannaeyjar við Vestmannabraut 28 í tveimur eignum. Eldri hlutinn er 1.259 fermetrar og var upphaflega byggður árið 1984 en nýrri hlutinn er í 954 fermetra nýbyggingu sem framkvæmdir hófust við árið 2014 eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma. Þá er gistiheimilið Sunnuhól í 188 fermetra húsi við Vestmannabraut 26. Alls nemur fasteignamat eignanna 208 milljónum króna en brunabótamat 784 milljónum króna.

Eigninni fylgir veitingasalur sem notaður hefur verið fyrir morgunverð og leigður út til veitingastaðarins Einsa Kalda auk rými sem áður var leigt undir snyrtistofu. Í kjallara hótelsins er að finna fundarherbergi og lítið spa með tveimur heitum pottum, sauna og hvíldarherbergi sem var endurnýjað árið 2019.

Auk þess liggja fyrir hugmyndir og teikningar að tæplega 1.000 fermetra stækkun við hótelið. 

„Viltu ekki bara kaupa af mér hótelið?“

Hótelið er í eigu hjónanna Magnúsar Bragasonar og Öddu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þau tóku við hótelinu árið 2011 eins og Magnús lýsti í viðtali við Morgunblaðið árið 2018. Raunar hafi hótelið hafi dottið í fangið á hjónunum.

Adda hafi þá starfað sem kennari og Magnús rak eigin dekkjaverkstæði en þau voru bæði farin að leita sér að nýjum starfsvettvangi. Á leið heim úr vinnu gekk Magnús framhjá Hótel Þórshamri eins og hótelið hét þá. „Á því andartaki kom Gísli Valur Einarsson, eigandi hótelsins, út og kallaði til mín: „Viltu ekki bara kaupa af mér hótelið? Ég get tekið við dekkjaverkstæðinu af þér,“ hafði Morgunblaðið eftir Magnúsi á sínum tíma. Það varð raunin og sagði Magnús báða staði hafa haft gott af skiptunum.

Rekstrartekjur Hótels Vestmannaeyjar ehf. árið 2019 námu 118 milljónum króna en voru 130 milljónir árið 2018. Þó var rekstrarhagnaður bæði árin en hann lækkaði úr 28 milljónum í 20 milljónir á milli ára. Þá snérist afkoman úr 3,4 milljóna hagnaði í 2,8 milljóna tap á milli áranna 2018 og 2019.