Viðræður eru hafnar á milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og stjórnvalda í Bandaríkjunum um fríverslunarsamning yfir Atlantsála. Gangi áætlanir eftir munu viðskiptahömlur á milli ESB og Bandaríkjanna verða látnar niður falla. Áætlað verðmæti samninganna gæti numið um 455 milljörðum evra, jafnvirði 78 þúsund milljarða íslenskra króna, á ári hverju. Ef skrifað verður undir munu þetta verða einhverji umfangsmestu viðskiptasamningar sem um getur.

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, greindu frá viðræðunum að fundi þeirra loknum í Brussel í dag.

Breska ríkisútvarpið (BBC) hefur eftir Barroso að samningarnir geti skilað miklum efnahagslegum ábata fyrir báða aðila.