*

föstudagur, 28. janúar 2022
Erlent 11. mars 2021 15:20

Stærsti skuldapakki í sögu fluggeirans

American Airlines mun sækja alls tíu milljarða dala í lánsfé sem veitir því lausafé sem endist í eitt og hálft ár.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

American Airlines lauk í gær 6,5 milljarða dala skuldabréfaútgáfu en auk hennar mun flugfélagið einnig taka 3,5 milljarða dala lán. Þessi tíu milljarða dala skuldapakki American er sá stærsti í sögu fluggeirans og skákar því 9 milljarða dala skuldabréfaútgáfu og lántöku Delta í september síðastliðnum.

Alls bárust tilboð að fjárhæð 45 milljörðum dala í skuldabréf American, samkvæmt heimildarmanni Financial Times. Vegna mikils áhuga fjárfesta hækkaði flugfélagið skuldabréfaútgáfuna úr 5 milljörðum í 6,5 milljarða dala og lántökuna úr 2,5 milljörðum í 3,5 milljarða dala. 

American seldi tvær tvær útgáfur af skuldabréfum með lánshæfiseinkuninni Ba2 frá Moody‘s. Annars vegar gaf félagið út fimm ára skuldabréf fyrir 3,5 milljarða dala sem bera 5,5% nafnvexti og hins vegar átta ára skuldabréf fyrir 3 milljarða dala sem bera 5,75% nafnvexti. Flugfélaginu býðst því betri vaxtarkjör en síðasta sumar þegar það neyddist til að gefa út skuldabréf með 11,75% nafnvöxtum. 

Skuldapakkinn mun veita American lausafé sem endist í rúmlega eitt og hálft ár, að því er FT hefur eftir Mark Benbow, sjóðstjóra hjá Aegon Asset Management. Flugfélagið áætlar að það muni brenna daglega í gegnum 30 milljónir dala á fyrsta fjórðungi ársins. 

Síðasta sumar setti American vildarkerfi sitt að veði þegar það tók 7,5 milljarða dala ríkistryggt lán. 

Stikkorð: American Airlines Delta