Starf forstjóra Keflavíkurflugvallar ohf. hefur verið auglýst. Um er að ræða nýja stöðu innan sameinaðs félags Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Umsóknarfrestur er til og með 16. ágúst.

Keflavíkurflugvöllur ohf. var stofnað 26. júní sl. og mun frá og með 1. janúar nk. taka yfir rekstur og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Samgönguráðherra hefur skipað aðalstjórn félagsins sem starfar fram að aðalfundi þess. Hana skipa: Jón Gunnarsson, formaður félagsins, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Ellert Eiríksson og Pétur J. Eiríksson.

Í auglýsingu um forstjórastarfið segir meðal annars að starfs- og ábyrgðarsvið forstjóra sé fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á starfsemi sem tilheyri Keflavíkurflugvelli og dótturfélögum, eftirlit með að framfylgt sé lögum, reglugerðum, alþjóðasamningum og fyrirmælum um flugstarfsemi, uppbygging og stefnumótun, áætlanagerð, skipulags-, öryggis- og umhverfismál og innlend og erlend samskipti.

Gerðar eru kröfur til háskólamenntunar á sviði viðskipta eða um sambærilega menntun sem nýtast muni í starfinu, víðtækrar stjórnunarreynslu, framkvæmdavilja og metnaðar, framúrskarandi samskiptahæfni, samningatækni, þekkingar á fjármálum og góðrar og öruggrar framkomu.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.