Þrír af þeim fimm sem grunaðir voru um skilasvik í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á tæplega 20 milljarða króna millifærslum af reikningi Landsbankans til MP banka og Straums og kaupa á verðbréfum af sjóðum Landsvaka daginn áður en skilanefnd tók bankann yfir í október árið 2008 eru sjálfstætt starfandi ráðgjafar. Einn fór utan í nám.

Mennirnir þrír sem vinna sem ráðgjafar eru Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Jón Þorsteinn Oddleifsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar bankans og Þórir Örn Ingólfsson, fyrrverandi forstöðumaður áhættustýringar Landsbankans. Stefán Héðinn Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eignarstýringar Landsbankans, fór utan til náms. Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um hvað fimmti maðurinn, Hannes Júlíus Hafstein, fyrrverandi deildarstjóri fjárfestingarbanka á lögfræðisviði Landsbankans, gerir í dag.

VB.is hefur heimildir fyrir því að mennirnir hafi ekki verið í starfi hjá öðrum frá því að þeir voru færðir til yfirheyrslu hjá embætti sérstaks saksóknara í ársbyrjun 2011.

Embættið hefur nú fellt niður rannsókn málsins, eins og VB greindi frá í dag . Mönnunum fimm var sent bréf þessa efnis 4. nóvember síðastliðinn.