Á sex íbúafundum sem Fjarðaál hélt fyrir skömmu á Austurlandi voru kynntar fyrir fólki upplýsingar um að gangsetningu Alcoa Fjarðaáls er nú lokið og verið er að ganga frá ráðningu síðustu starfsmanna. Einnig að framleiðslulínur í steypuskála nálgast full afköst og losun gróðurhúsaloftegunda og annarra útblástursefna er innan þeirra marka sem kveðið er á um í starfsleyfi álversins.

„Miklar og almennar umræður sköpuðust á íbúafundunum og lýstu margir fundarmenn yfir ánægju sinni með starfsemi og umhverfisstefnu Fjarðaáls en samkvæmt henni er mikil áhersla lögð á endurvinnslu á öllum stigum framleiðslunnar. Fjarðaaál urðar engan úrgang heldur sendir hann til endurvinnslu, eins og annað sem til fellur hjá fyrirtækinu. Ekkert frárennsli er frá iðnaðarstarfsemi álversins til sjávar,“ segir í tilkynningu frá Fjarðaáli.

Á íbúafundunum kom einnig fram að starfsmenn Fjarðaáls eru um 450, konur eru um þriðjungur starfsmanna, helmingur starfsmanna álversins er af Austurlandi og 38% þeirra eru með háskóla- og tæknimenntun. Aldursdreifing starfsmanna álversins er góð, en 30% starfsmanna er á aldrinum 30 til 49 ára og 18,4% starfsmanna eru eldri en 50 ára. Á álverslóðinni starfa að auki 300 manns við margvísleg störf á vegum verktaka. Varlega áætlað skapar Fjarðaál um 900 störf á Austurlandi, ef afleidd störf eru talin með.