Þeim starfsmönnum sem segjast ekki stoltir af því að vinna hjá Deutsche Bank hefur farið fjölgandi, ef marka má könnun sem framkvæmd var á starfsfólki bankans nýlega. Þetta kemur fram í fréttaveitu Bloomberg.

Í minnisblaði sem dreift var til starfsfólks segir John Cryan, framkvæmdastjóri bankans, að niðurstöðurnar séu alvarlegar. „Breytingarnar sem ganga nú yfir á fyrirtækinu hafa valdið miklum óróleika og óvissu.”

Þá vísar Cryan til þess að verulegar stefnubreytingar hafa orðið á Deutsche Bank upp á síðkastið. Fólki hefur verið sagt upp og bónusar efstu manna hafa verið skornir niður allverulega. Ólga ríkir, jafnt meðal starfsmanna og fjárfesta.

Markaðsvirði Deutsche Bank er um þriðjungur bókfærðs virðis fyrirtækisins, sem þýðir að fjárfestar telja að geta bankans til að skapa fé sé talsvert minni en bókhald fyrirtækisins gefur til kynna.