*

laugardagur, 7. desember 2019
Innlent 27. júní 2014 15:00

Starfsfólki Fiskistofu illa brugðið

Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu, segir ákvörðun um að færa starfsemina koma flatt upp á starfsfólkið.

Jóhannes Stefánsson
Haraldur Guðjónsson

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tilkynnt um að starfsemi Fiskistofu verði færð til Akureyrar. Stofnunin er nú staðsett að Dalshrauni í Hafnarfirði þar sem hún hefur verið síðan 2005. Starfsfólkinu hefur verið boðið starf kjósi það að flytja með stofnuninni. Þeim sem hyggjast ekki gera það verður boðin fagleg aðstoð við endurmenntun og atvinnuleit samkvæmt tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.

Mun hafa neikvæð áhrif á starfsemina

Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu, segir ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar um að færa skrifstofu úr Hafnarfirði til Akureyrar koma flatt upp á starfsfólkið. „Fólki er illa brugðið,“ segir Eyþór. Hann segir að ákvörðunin hafi ekki verið gerð í samráði við starfsfólk stofnunarinnar, en útlit sé fyrir að þeir sem ekki kjósi að flytja til Akureyrar muni missa vinnuna. „Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi,“ segir Eyþór.

„Þetta er mjög erfitt fyrir stofnunina,“ segir Eyþór. „Stofnunin býr að mjög mikilli reynslu og djúpri þekkingu á fiskveiðistjórnun og regluverkinu sem að ég óttast að tapist,“ bætir hann við. Sigurður Ingi gaf sig á tal við starfsfólk Fiskistofu núna síðdegis þar sem flutningurinn var tilkynntur. „Ég stökk inn úr sumarfríinu til að tala við starfsfólkið augliti til auglitis,“ segir Eyþór.

Veit ekki hvar starfsemin verður

Aðspurður segist Eyþór ekki vita hvar skrifstofa Fiskistofa komi til með að vera, né hver ástæða flutninganna sé. „Ráðherrann verður að fá að svara því sjálfur,“ segir Eyþór. Í Viðskiptablaði vikunnar er sagt frá því að ríkið sé með húsnæði að Borgum við Norðurslóð á leigu. Hluti húsnæðisins er sérstaklega útbúið til rannsókna, en leigan er sérlega dýr.