Starfsmannasamningar Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnenda Kaupþings, eru til skoðunar hjá ríkisskattstjóra. Sama gildir um aðra starfsmenn Kaupþings sem gerðu slíka samninga, kaupréttarsamninga eða söluréttarsamninga, við bankann.

Í Fréttatímanum í síðustu viku kom fram að Hreiðar Már og Sigurður eigi ekki von á bakreikningi frá skattinum vegna þess að þeir hafi gert kaupréttarsamninga en ekki söluréttarsamninga líkt og margir aðrir starfsmenn gerðu. Af kaupréttarsamningunum hafi verið greiddur tekjuskattur en ekki fjármagnstekjuskattur eins og var greiddur vegna söluréttarsamninga.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru samningar Hreiðars Más og Sigurðar til skoðunar og eru í sama ferli og mál annarra starfsmanna. Ekki liggur ljóst fyrir hvort að þeir hafi fallið frá söluréttarsamningum árið 2003, líkt og segir í Fréttatímanum, og þess í stað gert kaupréttarsamninga. Samningar þeirra eru því til skoðunar líkt og annarra starfsmanna.

Alls eru samningar um sextíu starfsmanna Kaupþings til skoðunar hjá ríkisskattstjóra vegna þess að ekki var greiddur af þeim réttur skattur.

Tveir dómar hafa fallið í héraðsdómi þar sem fyrrum starfsmönnum sem gerðu söluréttarsamninga var gert að greiða af þeim tekjuskatt en ekki fjármagnstekjuskatt. Bakreikningur ríkisskattstjóra var því dæmdur löglegur en bæði málin bíða þess að vera tekin fyrir í Hæstarétti. Annað málanna varðaði fyrrum starfsmann kaupþings, en Bjarka H. Diego fyrrum framkvæmdastjóra var gert að greiða um 150 milljónir króna.

Þá hefur yfirskattanefnd komist að þeirri niðurstöðu að af bæði kaupréttarsamningum og söluréttarsamningum skuli greiða skatt líkt og um launatekjur sé að ræða. Þannig skipti ekki öllu máli hverskonar samning hafi verið um að ræða, heldur skipti máli að samningarnir eru launþegasamningar.