Mikill tími fer í það að svara erindum frá samkeppnisyfirvöldum vegna mála sem aldrei verður neitt úr, að sögn Steins Loga Björnssonar, forstjóra Skipta, móðurfélags Símans, Mílu og tengdra fyrirtækja. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið mörg málanna sem komi inn á borð til sín teygja anga sína mörg ár aftur í tímann, jafnvel til ársins 2001 þegar fyrirtækið var enn í eigu ríkisins og að stíga sín fyrstu skref í alvöru samkeppnisrekstri.

Steinn Logi bendir á að það sé mat stjórnenda Skipta sem og lögfræðinga félagsins að mörg þeirra mála sem um ræðir séu flókin og oft á tíðum mats­kennd. Það eigi sérstaklega við um þegar metið er hvort markaðsráðandi staða á tilteknum markaði hafi verið misnotuð.

Rætt er við Stein Loga í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Hann segir m.a. að stjórnendur Skipta hafi verið innleidd það sem sé kallað samkeppnisréttaráætlun að evrópskri fyrirmynd og hafi starfs­menn Skipta og dótturfélaga, stjórnarmenn og fleiri sótt námskeið um samkeppnisrétt.

„Það er búið að uppfæra siðareglur félaganna og tengja þær með beinni hætti við samkeppnisréttaráætlunina og síðan höfum við í samstarfi við Póst­ og fjarskiptastofnun búið til sérstakt og umfangsmikið aðgangsstýringakerfi starfsmanna hér innanhúss. Hér er lögð mikil áhersla á að starfsmenn fari að samkeppnislögum og þessi atriði eiga að hjálpa mönnum til frambúðar,“ segir hann.