Starfsmenn Landsbankans mun fá afhent samtals innan við 1% hlut í landsbankanum, en hluthafafundur bankans samþykkti í dag úthlutunarreglur við afhendingu hlutabréfanna. Afhending hlutabréfanna er hluti af samningi um fjárhagslegt uppgjör við gamla Landsbankann og íslenska ríkið.

Í raun er um stærri hlut í bankanum að ræða, því um ríflega helmingur hlutafjárins sem um ræðir rennur til ríkisins í formi skatta. Heildar skattalegt verðmæti hlutabréfanna er 4,7 milljarðar króna. Þar sem starfsmönnum bera að greiða tekjuskatt af virði þeirra eins og ef um launagreiðslu væri að ræða heldur bankinn eftir hlutabréfum að verðmæti 2,3 milljarðar króna og rennur sú fjárhæð til ríkisins. Þá renna 600 milljónir króna í lífeyrissjóði. Starfsmenn fá því til sín hlutabréf, miðað við skattalegt mat, að verðmæti 1,8 milljarðar og er sú fjárhæð innan við 1% af heildarverðmæti hlutafjár í bankanum.

Allir starfsmenn Landsbankans og Landsbréfa sem voru fastráðnir þann 31. mars fá afhent hlutabréf auk þeirra sem látið hafa af störfum vegna aldurs, örorku eða verið sagt upp í hagræðingarskyni. Fjöldi hlutabréfa sem hver starfsmaður fær í sinn hlut er hlutfallslegur og miðast við föst laun og starfstíma hjá bankanum frá 15. desember 2009 til 31. mars 2013.

Starfsmenn undirgangast ströng skilyrði um sölu hlutabréfanna og er óheimilt að selja þau fyrr en eftir þrjú ár frá afhendingu en hluta má selja fyrr, verði bréf bankans skráð á markað.