Starfsmenn nýsjálenska flugfélagsins Air New Zealand hafa brugðið á það skemmtilega ráð að fækka fötum í nýrri auglýsingu fyrir flugfélagið.

Ekki er þó um neina dónaauglýsingu að ræða því starfsfólkið er málað í búningum flugfélagsins með líkamsmálningu og á auglýsingin ekki aðeins að vekja athygli á félaginu heldur er einkenni hennar að flugfélagið „hafi ekkert að fela“ ólíkt öðrum lággjaldaflugfélögum sem krefjast greiðslu fyrir hina ýmsu þjónustu – svo sem farangursgjalds, innritunargjalds auk þess sem rukkað er fyrir veitingar.

Það sem vekur ekki síður athygli er að Rob Fyfe, forstjóri Air New Zealand kemur einnig fram í auglýsingunni, málaður í einkennisbúningum félagsins.

Auglýsingin á að vekja athygli á þeirri stefnu félagsins að gjöld fyrir drykki, farangur og aðra þjónustu er innifalið í verðum flugfélagsins.

Flugfélög út um allan heim hafa verið að vekja athygli á sér undanfarin misseri til að bregðast við þeim efnahagssamdrætti sem nú ríkir á mörkuðum. Þannig tilkynnti easyjet fyrir um viku síðan að flugfélagið ætlaði að bjóða upp á hjónavígslur um borð í vélum sínum, sem þó er háð því flugmenn félagsins fái leyfi til að vígja hjón í 30 þúsund fetum.

Þá tilkynnti Ryanair fyrir skömmu að félagið hygðist rukka offitusjúklinga sérstaklega fyrir tvö sæti en bandaríska flugfélagið United Airlines sagði í kjölfarið að innan skamms yrðu farþegar, sem ekki kæmust fyrir í einu sæti á almennu farrými, skyldaðir til að kaupa sér tvö sæti.

Til viðbótar þessu hafa nokkur flugfélög lýst því yfir að þau muni rukka sérstaklega fyrir afnot af salernum vélanna.

Air New Zealand slær allar þessar hugmyndir út af borðinu og rukkar aðeins fyrir flugmiðann og ekkert annað. Það er þó skemmst frá því að segja að auglýsingin verður ekki sýnd í Bretlandi.