Starfsmenn Sterling-flugfélagsins, sem nú er gjaldþrota, voru í nótt beðnir um að halda sig heima og klæðast ekki fatnaði merktum félaginu af ótta við að þeir yrðu fyrir aðkasti frá reiðum farþegum.

Tugir þúsunda farþega eru strandaglópar vegna gjaldþrotsins. Þá mættu grunlausir ferðamenn á Kastrup-flugvöllinn í Kaupmannahöfn í morgun þar sem þeir fengu þau tíðindi að ekkert yrði af fyrirhuguðu ferðalagi.

Danskir netfjölmiðlar fjalla mikið í dag um gjaldþrot Sterlings sem er  í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.

Viðskiptablaðið Börsen greinir meðal annars frá því að starfsmenn flugfélagsins séu reiðir yfir því að fá ekki útborgað á morgun. „Ég er mest vonsvikin yfir því að fá ekki útborgað á morgun," er haft eftir Ursula Bresemann, formanni félags 320 flugliða Sterling.

Pálmi hafi svikið starfsmennina

Hún greinir frá því að forsvarsmenn Sterling hafi beðið Multidata, sem sjái um launagreiðslunar, að halda laununum eftir. Með því sé Pálmi Haraldsson að svíkja starfsmenn sína, segir hún.

Nú þurfi starfsmennirnir að leita á náðir ábyrgðarsjóðs launa.

Um 1.100 starfsmenn vinna hjá Sterling. Fram kemur í Börsen að hópur þeirra hafi í nótt fengið sms-skilaboð um að halda sig heima og klæðast ekki einkennisbúningi félagsins. Markmiðið með því hafi verið að tryggja öryggi starfsmanna ef á vegi þeirra skyldu verða reiðir farþegar Sterlings.

Hlutabréf í flugfélaginu SAS hafa stigið hratt í morgun eða um rúmlega 21 prósent. Þannig er, segir Börsen, eins dauði annars brauð.