*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 27. maí 2021 19:03

82 umsóknir í Startup SuperNova

Meðal hugmynda í Startup SuperNova í ár er app fyrir heilsu og þjálfun hunda og rúta með innbyggðri sánu.

Ritstjórn
Hópurinn sem tók þátt í Startup SuperNova á síðasta ári.
Aðsend mynd

Búið er að velja teymin sem taka þátt í viðskiptahraðlinum Startup SuperNova sem fer fram í níunda sinn í sumar en þau samanstanda af 28 þátttakendum. Alls bárust 82 umsóknir en umsóknarfresturinn rann út þann 9. maí síðastliðinn.

Teymin sem taka þátt hljóta fjárstyrk að upphæð einni milljón króna, fá aðgang að vinnuaðstöðu í Grósku hugmyndahúsi og njóta leiðsagnar reyndra frumkvöðla, fjárfesta, stjórnenda og ráðgjafa.

Hraðallinn, sem er samvinnuverkefni Icelandic Startups og Nova, stendur yfir í 10 vikur í sumar, frá júní og fram í ágúst þegar honum lýkur með svokölluðum fjárfestadegi þar sem fyrirtækin kynna áætlanir sínar fyrir áhugasömum fjárfestum.

Verkefnin sem taka þátt í Startup SuperNova í ár eru eftirfarandi (tíunda teymið verður kynnt síðar):

Pet fit health gefur út app sem snýst um heilsu og þjálfun gæludýra og er í leikjaformi. Geta gæludýra eigendur keppt sín á milli hver er duglegastur að hugsa um dýrið og ná tilteknum markmiðum

PLAIO gerir fyrirtækjum kleift að nýta eigin gögn til að gera spár, áætlanir og annað með sem minnstum tilkostnaði og tæknilegri þekkingu.

Procura færir fasteignaviðskipti í símann og hjálpar fólki að nálgast upplýsingar og þjónustu sem varða rekstur og umsjón fasteigna.

Venue sérhæfir sig í aðgangsstýringu og miðasölu á stafræna viðburði af öllum gerðum.

Swapp Agency aðstoðar íslensk fyrirtæki í útrás með mannauðslausnum ásamt því að aðstoða erlenda sérfræðinga sem koma til Íslands.

Wildness er sjálfbært fatamerki sem vinnur með lífræn efni og efni úr endurunnu plasti úr sjónum.

Travia er nútíma markaðstorg fyrir ferðaskrifstofur og gististaði. Með Travia geta ferðaskrifstofur bókað beint inn á gististaði í rauntíma, á raunframboði og á bestu mögulegu verðunum.

Iðunn H2 þróar sjálfbær vetnisvistkerfi með það að markmiði að minnka kolefnisspor mannkyns.

Saunabus er rúta með innbyggðri saunu sem mun ferðast um hálendi Íslands.

Valnefndina skipuðu, auk fulltrúa frá Icelandic Startups sem hafa umsjón með verkefninu:

  • Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
  • Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður tækninefndar hjá Vísinda- og tækniráði
  • Einar Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu

Davíð Helgason, meðstofnandi Unity, og Guðmundur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Fractal 5 og stjórnarmaður Icelandair, eru meðal ráðgjafa í viðskiptahraðlinum.