Viðskiptablaðið spurði Stefán Pálsson sagnfræðing í Áramótum, tímariti blaðsins sem kom út á milli jóla og nýárs, út í eitt og annað sem honum fannst standa upp úr á nýliðnu ári.

Brúðkaup ársins: Uuu, ha?

Dóni ársins: NR1DAD. Kunnur íþróttagarpur varð hataðasti maður internetsins í heila helgi út á að leggja ólöglega og skammast sín ekkert.

Hneyksli ársins: Kjötlausu kjötbökurnar. Evrópa fékk sinn hrossakjötsskandal, en Íslendingar trompuðu allt með stóra-kjötbökumálinu.

Hetja ársins: Chelsea Manning. Hlaut 35 ára fangelsisdóm fyrir að upplýsa Vesturlönd um glæpi okkar.

Frétt ársins: Njósnir NSA. Edward Snowden ljóstraði upp um njósnir Bandaríkjastjórnar sem voru jafnvel enn umfangsmeiri en nokkurn gat órað fyrir.

Matarkúr ársins: Bómullarkúrinn. Komst í fréttirnar á árinu og gengur út á að borða bómullarhnoðra til að blekkja meltingarfærin. Er víst jafn ólystugt og hættulegt og það hljómar.

Óvænt ánægja ársins: Eiður Guðnason. Eiður gerðist róttæklingur á gamals aldri og stillti sér upp fyrir framan vélar Vegagerðarinnar.

Bömmer ársins: Eiður Guðnason. Eiður var handtekinn korteri eftir að hann gerðist róttæklingur.

Besti brandari ársins: Sturl-Ung, sjálfskipuð ungliðahreyfing Sturlu Jónssonar, fór á kostum á netinu fyrir kosningarnar.

Mest þreytandi brandari ársins: Hatrið á Jóni Gnarr. Endalausar glósur sjálfstæðismanna um að borgarstjóri væri trúður voru aldrei fyndnar, en orðnar algjörlega óþolandi fyrir rest.