Stefán Hilmar Hilmarsson, fyrrum fjármálastjóri og aðstoðar framkvæmdarstjóri Baugs, vill að launakrafa hans í þrotabú félagsins verði meðhöndluð sem forgangskrafa. Launakrafa Stefáns er upp á 25,8 milljónir króna.

Umsjónarmenn þrotabús Baugs eru ósammála því að krafan sé forgangskrafa og vísa til þess að kröfur stjórnenda eigi ekki að flokkast sem slíkar.

Þeir vilja meina að Stefán hafi í raun verið æðsti yfirmaður á skrifstofu Baugs á Íslandi þar sem að Gunnar Sigurðsson, sem var skráður framkvæmdastjóri Baugs áður en félagið fór í þrot, starfaði frá skrifstofu félagsins í London. Þrotabúið hefur skotið þessum ágreiningi til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrskurðar. Málið verður þingfest á morgun.

Ef héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að launakrafa Stefáns sé forgangskrafa í bú Baugs þá mun hann fá kröfuna greidda að fullu. Ef dómurinn kemst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu fæst krafan í besta falli greidd að óverulegu leyti.

Heildarkröfur í þrotabú Baugs nema 316,6 milljörðum króna og skilanefnd Landsbankans er stærsti kröfuhafinn. Krafa bankans er upp á 94 milljarða króna. Verðmætustu eignir þrotabúsins eru í félaginu BG Holding í Bretlandi, en þar inni eru meðal annars eignarhlutir í Iceland Foods verslanakeðjunni og leikfangabúðinni Hamley's.