Eigendur og rekstraraðilar Sóltúns hjúkrunarheimilis í Reykjavík stefna á mikla uppbyggingu á svæðinu á næstu árum. Nú þegar er verið að reisa 44 öryggis- og þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara í Sóltúni 1-3 og verða þær tilbúnar vorið 2017. Um er að ræða leiguíbúðir með afnotaréttargjaldi líkt og tíðkast með aðrar þjónustuíbúðir, en biðlisti eftir sambærilegum íbúðum telur allt að 150 manns og getur tekið þrjú ár að fá úthlutun.

Þar að auki er stefnt að því að bæta fjórðu hæðinni við hjúkrunarheimilið í Sóltúni og fjölga þar með rýmum um 22. Geta þær framkvæmdir hafist um leið og leyfi fæst frá Velferðarráðuneytinu. Þá er jafnframt stefnt á að byggja nýtt hjúkrunarheimili með 107 rýmum, auk rúmlega 2.600 fermetra þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara í hverfinu og íbúa og starfsfólk Sóltúns.

Samhliða nýjum íbúðum verður sett á stofn félag sem mun bjóða upp á heimaþjónustu og heimahjúkrun til eldri borgara í íbúðunum og nágrenni, en þjónustan á að vera sambærileg þeirri sem hjúkrunarheimilið Sóltún býður upp á. Samtals er um 7,5 milljarða króna fjárfestingu í heilbrigðisþjónustu fyrir eldri borgara í Sóltúni að ræða og ljóst er að ekki veitir af.

Vilja að fólk hafi valkosti

„Fólk vill og vantar þjónustu og vill fá að búa heima hjá sér sem lengst. Það er einnig vandamál að fólk sem þarf að komast á hjúkrunarheimili kemst ekki að vegna þess að það er ekki nógu mikið fjármagn veitt í þennan málaflokk til að byggja ný hjúkrunarheimili,“ segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns 1 ehf. sem rekur Sóltún öryggis- og þjónustuíbúðir og Sóltúns heimahjúkrunar- og heimaþjónustu ehf.

Halla bindur vonir við að hér á landi verði hægt að taka upp fyrirkomulag varðandi heima¬ þjónustu fyrir eldri borgara sem hún og aðrir forsvarsmenn Sóltúns fengu að kynnast í Álaborg í Danmörku og þekkist víðar á Norðurlöndunum. Þar fá einkaaðilar og sveitarfélög sömu fjárhæð frá hinu opinbera fyrir veitta þjónustu og geta viðskiptavinir valið hvaðan þeir kaupa þjónustuna.

„Þessi valkostur felst í því að þarna eru mun fleiri einkarekin fyrirtæki sem bjóða upp á heimahjúkrun og hægt er að velja hvort þú viljir þjónustuna frá sveitarfélaginu eða einu af þessum fyrirtækjum. Hið opinbera greiðir fyrir það sem það telur að aðili þurfi á að halda en ef honum finnst það ekki duga getur hann keypt við¬ bótarþjónustu af einkareknu fyrirtækjunum,“ segir Halla. Þannig gæti kerfið verið með þeim hætti að fólk fengi ávísun frá hinu opinbera sem það gæti notað til að borga fyrir þjónustu og valið hvort sú ávísun rynni til einkaaðila eða sveitarfélaga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .