Ný eigendastefna fyrir fjármálafyrirtæki sem ríkissjóður á eignarhluti í hefur tekið gildi, eftir að stefnan var samþykkt af ríkisstjórn. Stefnan gildir fyrir fjögur fjármálafyrirtæki: Landsbankann, Íslandsbanka, Arion banka og Sparisjóð Austurlands að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Íslandsbanki:

Samkvæmt stefnunni er stefnt að því að ríkissjóður selji alla eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka þegar hagfelld og æskileg skilyrði verða fyrir hendi. Ríkið á 100% eignarhlut í bankanum.

Ríkissjóður eignaðist öll hlutabréf í Íslandsbanka sem hluta af stöðugleikaframlagi Glitnis við uppgjör slitabúsins.

Landsbankinn:

Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að ríkissjóður eigi verulegan eignarhlut, 34 til 40% í Landsbankanum til langframa. Stefnt er að því að skrá Landsbankann á hlutabréfamarkað til lengri tíma litið.

Arion banki:

Enn fremur er stefnt að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Arion banka en eins og sakir standa á ríkið 13% eignarhlut í bankanum. Þar sem ríkið er minnihlutaeigandi mun salan líklega eiga sér stað samhliða sölu meirihlutaeigendans eða skráningu bankans á hlutabréfamarkað.

Einnig er stefnt að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands.

Gjörbreytt staða

Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að eigendastefna fyrir fjármálafyrirtæki sett fram árið 2009 og endurspeglaði stöðuna eftir endurreisn fjármálakerfisins. Nú er staða hagkerfisins og ríkisfjármála nú er gjörbreytt til hins betra, en eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefur tekið grundvallarbreytingum og á ríkið nú meirihluta bankakerfisins.

„Í endurskoðaðri stefnu er skerpt á ákvæðum um stjórnarhætti, upplýsingagjöf, gagnsæi og fagleg vinnubrögð. Undirstrikuð er sú skylda stjórna að fara að ákvæðum eigandastefnunnar og upplýsa eiganda í þeim tilvikum sem slíkt er ekki talið hægt eða ef stjórn verður þess áskynja að ekki hefur verið farið eftir þeim,“ segir í tilkynningunni.

Drög að stefnunni voru kynnt til umsagnar á vef ráðuneytisins frá 10. febrúar til 20. mars 2017 og bárust umsagnir frá Bankasýslu ríkisins, Samkeppniseftirlitinu og Landsbankanum auk umsagna frá tveimur einstaklingum. Farið var yfir umsagnirnar og eigendastefnan var uppfærð eftir því sem efni stóðu til, en ekki urðu meiriháttar efnislegar breytingar frá fyrri drögum.

Bankasýsla ríkisins fer sem fyrr samkvæmt lögum með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma.