Hluti af þeim lífeyrissjóðum sem eru með ábyrgð opinberra aðila stefna í þrot, verði ekki brugðist fljótlega við. Þetta er mat Hagfræðideildar Landsbankans, sem bendir á að tryggingafræðileg staða opinberu lífeyirssjóðanna hafi verið neikvæð um sex hundruð ma. kr. um síðustu áramót.

Fram kemur í nýrri Hagsjá að það vanti um helming til þess að hægt sé að standa við áunnar lífeyrisgreiðslur og þar beri ríki og sveitarfélög ábyrgð á mismuninum. Í hagsjánni segir: „Félagsmenn sjóðanna eru sjálfir skattgreiðendur og bera þannig ábyrgð á helmingi þeirra eigna sem ætlað er að tryggja lífeyri þeirra. Með þessu áframhaldi er hætta á að lífeyriskerfið breytist smám saman í gegnumstreymiskerfi vegna vaxandi vægis eigna með ábyrgð opinberra aðila, og þar með sjóðfélaganna sjálfra, í eignasöfnum þeirra.“

Þá bendir hagfræðideildin á að það sé mjög áhættusamt fyrir lífeyrisþega framtíðarinnar að lífeyrissjóðirnir geti bara fjárfest á innlendum markaði vegna gjaldeyrishafta. Sjóðirnir eru mjög fyrirferðarmiklir á fjárfestingamarkaði og orðnir mjög stórir miðað við flestar hagstærðir landsins. Sjóðirnir áttu í byrjun júlí alls 33,5% af heildarmarkaðsvirði félaga í kauphöllinni. „Auknar erlendar fjárfestingar sjóðanna eru nauðsynlegar í því sambandi, enda eru þeir nú þegar orðnir of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir í Hagsjá.