Stefna og Ásprent Stíll hafa gert með sér samstarfssamning um sölu, markaðssetningu og hönnun á Moya veflausnum fyrir lítil sem stór fyrirtæki.

Moya er vefumsýslukerfi sem frá fyrsta degi hefur verið hannað með öryggi og einfaldleika að leiðarljósi. Einnig að viðbætur og uppfærslur séu engin fyrirstaða. Kerfið býður uppá fjölmarga möguleika og útfærslur og er það ætlað hverjum sem er, allt frá einstaklingum til stórfyrirtækja.

Í tilkynningu frá félögunum segir að kerfið sé smíðað í PHP forritunarmálinu sem hefur verið í stöðugri þróun frá 1992 og er orðið eitt stærsta forritunarmál í vefsmíði. Gagnagrunnurinn sem kerfið notast við er MySQL en þeir hafa verið rómaðir fyrir hraða og öryggi og hafa margsinnis fengið verðlaun fyrir verk sín.

Notkun kerfisins krefst engrar sérfræðikunnáttu því kerfið hefur sinn eigin vefritil sem hjálpar vefsmiðnum við gerð síðu, fréttar eða greinar. Grunnkerfið inniheldur það sem þarf til að koma venjulegri vefsíðu í notkun.

Markmið samstarfsins er að bjóða viðskiptavinum beggja fyrirtækja enn öflugri þjónustu og lausnir í markaðs- og kynningarmálum.

Stefna er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem sérhæfir sig í fyrirtækjaþjónustu og hugbúnaðargerð. Auk þess að þjónusta tölvukerfi fyrirtækja þá erum við með sölu á tölvum og búnaði. Stefna er sölu og umboðsaðili Opinna Kerfa á Norðurlandi.

Ásprent Stíll samanstendur af sex deildum, prentsmiðju, auglýsingastofu, skiltagerð, fatamerkingum, Dagskránni og verslun og er fyrirtækið samnefnari þjónustusviða og deilda sem miða að því að veita heildarlausnir í auglýsinga- og kynningarmálum. Fyrirtækið varð til við sameiningu Ásprents, Stíls og Alprents haustið 2003 og er byggt á þeim trausta grunni sem fyrirrennarar þess lögðu.