Stefna VR gegn íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Í stefnunni kemur fram að VR telji íslenska ríkinu hafa verið óheimilt að skerða rétt félagsmanna til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði. Stefnan var upphaflega lögð fram í héraðsdómi þann 2. janúar og óskaði félagið eftir flýtimeðferð en þeirri beiðni var hafnað.

VR heldur því fram að breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, sem tóku gildi þann 1. janúar sl., hafi ekki verið í samræmi við meginreglur stjórnskipunar um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Eignaréttur þeirra sem þegar fá atvinnuleysisbætur hafi verið skertur með afturvirkum og ólögmætum hætti og gengið hafi verið gegn réttaröryggi þeirra. Lagasetningin hafi verið byggð á ómálefnalegum forsendum og ekki verið gætt meðalhófs.

Hér má sjá stefnuna í heild sinni.