Verðmæti innflutts eldsneytis án álagningar og skatta nam 37,2 milljörðum króna á síðasta ári og 36,4 milljörðum árið 2006.

Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins (SA).

Sé miðað við óbreytta notkun á þessu og næsta ári og gengi krónunnar eins og það er um þessar mundir gæti verðmætið numið 75 milljörðum króna á þessu ári og 90 milljörðum á því næsta.

Þá eru kaup íslenskra aðila erlendis ótalin en ætla má að þau nemi allt að 15 milljörðum króna á þessu ári.

„Haldist olíuverð áfram jafn hátt eða hækki enn eins og ýmsar spár standa til, mun það valda miklum búsifjum hér á landi sem annars staðar. Mikilvægt er að þróun vistvænna orkugjafa verði hraðað,“ segir á vef SA.

Olíuverð er nú hærra en nokkru sinni fyrr. Í júnímánuði hefur verð á olíutunnu á hrávörumörkuðum verið tæplega 140 bandaríkjadollarar og nemur hækkunin frá áramótum um 50%. Olíuverðið er um tvöfalt hærra en það var að meðaltali á síðasta ári.

Haldist olíuverð óbreytt út árið má ætla að olíureikningur landsmanna hækki milli ára um rúmlega 70% í dollurum talið. Þar til viðbótar mætir neytendum gengislækkun krónunnar þannig að í krónum gæti verðið tvöfaldast.

Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.