Leiðtogar margra ríkja hafa ákveðið að mæta ekki við setningarathöfn Ólympíuleika fatlaðra sem fram fer í Sochi á morgun. Ástæðan er helst spennan á Krímskaga í Úkraínu.

Forseti Bandaríkjanna mun ekki mæta né heldur senda fulltrúa sinn. David Cameron, forsætisráðherra Breta, segir líka að enginn úr bresku ríkisstjórninni muni mæta. Játvarður, yngsti sonur Elísabetar Bretadrottningar, hefur einnig afboðað komu sína.

Þjóðverjar munu aftur á móti senda fulltrúa sinn, en Reuters segir að Þjóðverjar og Rússar hafi mikil viðskiptatengsl sem Þjóðverjar vilji leggja rækt við.

Til stóð að Eygló Harðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, myndi mæta. Í gær ákvað hún að hætta við að fara.