Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur fengið 962 pantanir í nýjar vélar það sem af er ári. Á sama tíma hefur helsti keppinauturinn, evrópski framleiðandinn Airbus, aðeins fengið 437 pantanir í nýjar vélar.

Þegar búið er að taka tillit til afpantana eru nettó pantanir 879-382, Boeing í vil. Þá hefur Boeing afhent 436 nýjar vélar það sem af er ári á meðan Airbus hefur afhent 405 nýjar vélar samkvæmt opinberum tölum beggja félaga.

Samkeppnin milli þessara tveggja risa hefur ekki farið framhjá þeim sem á annað borð fylgjast með flugheiminum. Þó svo að Boeing hafi nú fengið rúmlega tvöfalt fleiri pantanir í nýjar vélar það sem af er ári þá er rétt hafa í hug að síðustu níu ár hefur Airbus verið yfir Boeing þegar kemur að fjölda pantana á nýjum vélum.

Svo virðist sem Boeing sé að ná vopnum sínum á ný. Þar munar mestu um fjölda pantana í nýjar Boeing 737 Max vélum, sem eiga að vera sparneytnari og betri en núverandi 737 vélar, en rúmlega 400 slíkar vélar hafa verið pantaðar á árinu.