Eggert Þór Aðalsteinsson.
Eggert Þór Aðalsteinsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Útlit er fyrir að fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöllina greiði 11-13 milljarða króna í arð á næsta ári. Gangi það eftir er þetta um og yfir 100% aukning á milli ára. Eggert Þór Aðalsteinsson, sjóðsstjóri hjá verðbréfafyrirtækinu Virðingu, skrifar um málið í nýjasta hefti Þjóðmála. Hann segir að ein viðleitni í því að byggja upp trúverðugleika á hlutabréfamarkað á nýjan leik hafi verið að kalla eftir arðgreiðslustefnu hjá skráðum fyrirtækjum. Slík stefna veiti stjórnendum aðhald. Á hinn bóginn segir hann auknar arðgreiðslur hjá skráðum fyrirtækjum að öllum líkindum óhjákvæmilegar á komandi árum svo framarlega sem fjármagnshöfn verða við lýði.

Greiddu arð og fóru í þrot

Í grein sinni segir Eggert að arðgreiðslustefna kauphallarfyrirtækja fyrir bankahrunið var oft tilviljanakennd og jafnvel glórulaus, sérstaklega þegar nær dró skuldadögum. Hann rifjar upp að FL Group greiddi 15 milljarða króna í arð árið 2007. Þegar félagið var gert upp í lok sama árs nam heildartap félagsins 67 milljörðum króna. Þá greiddi Kaupþing 14,8 milljarða króna í mars árið 2008 sem jafngilti 20% af hagnaði ársins 2007. Hálfu ári síðar fór bankinn í þrot.

Eftir hrunið hafa arðgreiðslur fengið á sig annan blæ, jafnvel svo langt gengið í atvinnulífinu að arður hefur fengið á sig neikvæða merkingu í pólitískum rétttrúnaði eftirhrunsins, að sögn Eggerts sem segir það skiljanlegt að fjárfestar á endurreistum markaði vilji fá leiðarvísi frá stjórnendum fyrirtækja um hvernig ráðstafa eigi hagnaði fyrirtækja.

Greiddu 6,8 milljarða á árinu

Á þessu ári hafa fyrirtæki sem skráð eru á Aðallista og First North-hliðarmarkað Kauphallarinnar, greitt 6,8 milljarða króna í arð. Þetta er næstum tvöfalt meira en greitt var út í fyrra vegna afkomu fyrirtækjanna árið 2011. Í fyrra námu arðgreiðslur fyrirtækja 3,5 milljörðum króna.

Eggert segir tvennt skýra vöxt arðgreiðslna hér á landi. Annars vegar hafi einstök fyrirtæki hækkað arðgreiðslur á milli ára auk þess sem ný arðgreiðslufélög hafi komið fram á sjónarsviðið. Eggert bendir sérstaklega á að stoðtækjaframleiðandinn Össur hafi fyrr á árinu greitt hluthöfum arð í fyrsta sinn. Þá stefni ný félög á markað sem muni líklega marka sér skýra arðgreiðslustefnu.